Röntgen Domus er elsta og stærsta fyrirtækið innan læknisfræðilegrar myndgreiningar á Íslandi. Við framkvæmum nær 60 þúsund rannsóknir á ári. Hjá fyrirtækinu starfa u.þ.b. 40 manns með breiða þekkingu og langa reynslu. Við höfum gert meira en 20 þúsund TS rannsóknir af kransæðum frá árinu 2003.

Hjá fyrirtækinu eru 8 sérfræðilæknar sem mynda öflugt teymi með sérþekkingu á flestum undirgreinum fagsins svo sem hjarta- og lungnasjúkdómum, stoðkerfissjúkdómum, barnasjúkdómum, meltingarsjúkdómum, gigtarsjúkdómum, sjúkdómum í kvenlíffærum, þvagfærum, brjóstum og ísótópagreiningum svo eitthvað sé nefnt.

Við kappkostum að veita góða þjónustu og halda biðlistum stuttum. Yfir 90% rannsókna er svarað samdægurs þar af um 60% innan 3 klst. Öllum rannsóknum sem geta talist bráðar er svarað jafnóðum. Um það bil 30% rannsókna eru skoðaðar af tveimur læknum til að tryggja öryggi og gæði.

Markmið

Röntgen Domus (RD) hefur verið starfrækt frá árinu 1993. Markmið fyrirtækisins er að vera leiðandi í læknisfræðilegri myndgreiningu og laða til sín hæft og traust starfsfólk sem skilar framúrskarandi árangri. Það er gert með því að bjóða fullkomna vinnuaðstöðu og krefjandi vinnuumhverfi sem miðar að því að ná því besta út úr sérhverjum starfsmanni.

Starfsfólk, fræðsla og starfsþróun

Fyrirtækið leggur metnað í fræðslu, endurmenntun og upplýsingamiðlun til að auka færni starfsmanna. Það er stefna RD að gefa starfsmönnum kost á að þróast í starfi innan fyrirtækisins og að starfsmenn séu samkeppnishæfir á markaði hér heima sem og á alþjóðlegum markaði og mæti þeirri eftirspurn sem gerð er til starfseminnar.

Röntgen Domus er viðurkennd kennslustofnun af Háskóla Íslands fyrir bæði læknanema og geislafræðinema.

Hvetjandi og nærandi starfsumhverfi

Leitast er við að hafa vinnuumhverfi, tæki og aðbúnað starfsmanna hvetjandi og aðlaðandi og boðleiðir sem stystar. Rík áhersla er lögð á heilsuvernd og öryggi starfsmanna.

Snerpa til að tryggja samkeppnishæfni

Samkeppnisumhverfi RD kallar á að fyrirtækið sýni snerpu og lagi sig fljótt að breyttum þörfum neytenda á sviði myndgreiningar. RD gerir þá kröfu til starfsmanna að þeir sýni sveigjanleika og aðlögunarhæfni til að takast á við ný verkefni.

Starfsánægja, jafnvægi og góður vinnuandi

Áhersla er er lögð á starfsánægju, góðan starfsanda og vellíðan starfsmanna. Stuðlað er að jafnrétti til launa og starfstækifæra, samræmingu starfs og fjölskyldulífs, góðum starfsanda og jákvæðum, uppbyggjandi samskiptum milli samstarfsmanna.

Mynd af konu á leið í ístótóparannsókn
Mynd af manni í ómskoðun.
Segulómun í framkvæmd. Sýnir tækið inni í rannsóknarherberginu og starfsmannin sem er ekki í herberginu.