Ferlið

Rannsóknin fer þannig fram að þú leggst eða sest á bekk og læknir rennir ómhausnum  eftir þeim hluta líkamans sem á að rannsaka. Til þess að hindra að loft trufli myndgerðina er sett gel á milli húðarinnar og ómhaussins. 

Í ómskoðun berast hljóðbylgjur úr ómhausnum inn í líkamann. Þegar þær endurkastast verða til myndir af líffærum og æðum. Hljóðbylgjurnar eru ofan heyranlegra marka og rannsóknin því hljóðlaus. 

Í ómskoðunum er oftast verið að skoða líffæri, fyrirferðir í nágrenni við líffæri eða ástand æða og blóðrennsli. Ómskoðanir taka alla jafna 10-20 mínútur.

Undirbúningur

Fyrir ómskoðun af kviðarholi (lifur, gallblaðra og bris) þarf að fasta í a.m.k. fjórar klukkustundir. Fyrir ómskoðun af þvagblöðru þarf þvagblaðran að vera full.

Aðrar rannsóknir krefjast ekki sérstaks undirbúnings.

Börn í rannsókn

Ekki þarf að undirbúa börn undir rannsóknina öðruvísi en fullorðna. Þó er alltaf gott að útskýra rannsóknina vel og sýna þeim myndir. Það eyðir óvissu og minnkar líkurnar á að börnin verði óróleg á meðan á rannsókn stendur. 

Tímapantanir og niðurstöður

Eftir að læknir hefur sent inn beiðni um rannsókn höfum við samband við þig og finnum tíma í rannsókn. 

Sá læknir sem sendi þig í rannsóknina  fær svo niðurstöður rannsóknar og hefur samband við þig og kynnir niðurstöðurnar fyrir þér. Algengur biðtími er 1-2 dagar.